Sagnagrunnur

Kortlagður gagnagrunnur yfir íslenskar sagnir
A geographically mapped database of Icelandic folk legends

Opna kort / Open map   Ítarleg útgáfaAdvanced version

Category: Pistlar

1882 staðir

Núna eru 1882 staðir komnir á kortið en það eru 19% allra staða í sagnagrunninum. Sú prósenta mun þó án efa breytast þar sem margar færslur innihalda í raun fleiri en einn stað auk þess sem margir einstakir staðir eru í raun sami staðurinn. Það sem verkefnið snýst að miklu leyti um á þessu stigi er að greiða úr gagnagrunninum svo að auðveldara verði að leita í honum. Í haust eða næsta vetur verður vonandi hægt að veita aðgang að frumgerð vef-viðmótsins en sem stendur verðið þið að láta ykkur nægja stöku kort sem unnin eru úr grunninum.

flakkarar

Hér sést til dæmis dreifing sagna um flakkara á því svæði sem hefur verið kortlagt. Sagnirnar eru að vísu ekki margar en þær eru til dæmis Af Einari prestlausa1, Einar blautabrúða2, Mývatns-Skotta4 og Sagnaþáttur af Hljóða-Bjarna3. Þarna sést strax að þær fylgja nokkuð beinni línu, fara ekki langt út á nes og skaga og fylgja þannig sennilegum algengum leiðum á 19. öld.

 

1 Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Rits. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961), IV, 239-240. MS: Lbs 417,39.

2 Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Rits. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961), IV, 239-240. MS: Lbs 417,39.

3 Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. 2 bindi (Leipzig: J. C. Hinrichs, 1862-1864), I, 371-372. Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Rits. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961), I, 353-354. MS: Lbs 536,64.

4 Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir. 11. Bindi; 2. útgáfa. Rits. Óskar Halldórsson og fl. (Reykjavík: Þjóðsaga hf.,1982-1993), V, 263-269.

Sagnir um útilegumenn

útilegumenn

Á þessu korti smá sjá dæmi um áhugaverðar niðurstöður úr verkefninu. Þarna sjást sögustaðir sagna um útilegumenn en þær eru þónokkrar frá síðari hluta 19. aldar. Það sem er áhugavert þarna er dreifingin á svæðinu frá Hrútafirði austur að Eyjafirði og svo upp á hálendið. Ástæðan fyrir þessu er að miklu leiti sú að fólk af Norðurlandi fór iðulega í skreiðarferðir og í verstöðvar á Suðurlandi og Suðurnesjum. Þá þurfti að fara yfir hálendið sem var að miklu leyti ókannaður staður og hættulegur og því spunnust upp margar sögur um undarlegt og varasamt fólk á þeim slóðum. Athyglisvert er líka að sjá nokkrar sagnir á annars vegar Hornströndum og hins vegar Langanesi.

Enn er ekki búið að kortleggja suðurlandið en þegar því verður lokið verður spennandi að sjá heilarmyndina.