1. Inngangur
í Sagnagrunninum er að finna upplýsingar um sagnir í 19 útgefnum íslenskum þjóðsagnasöfnum. Í grunninum eru samtals rúmlega 10.100 sagnir og af þeim er safn Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri stærst með um 2.600 sagnir. Næst koma söfn Sigfúsar Sigfússonar, Íslenzkar þjóðsögur og sagnir með um 1.600 sagnir og Íslenzkar þjóðsögur Ólafs Davíðssonar með um 1.300 sagnir. Upplýsingar sem skráðar eru um hverja sögn eru meðal annars:
- Nafn sagnarinnar
- Tilvísun í ritið sem geymir hana
- Nafn og heimili heimildamanns
- Nafn og heimili sendanda
- Staðir sem koma fyrir í sögninni
- Efnisorð sem tengjast og lýsa efni sagnarinnar
- Útdráttur sagnarinnar
Hér má sjá lista yfir þau þjóðsagnasöfn sem finna má í grunninum ásamt fjölda sagna út hverju safni. Í eftirfarandi umfjöllun verður farið yfir helstu möguleika Sagnagrunnsins og kortsins.
2. Sagnirnar
Á forsíðu gagnagrunnsins má sjá lista yfir allar sagnir sem í honum er að finna ásamt upplýsingum um fyrstu sögnina. Hægra megin á síðunni er listinn yfir sagnirnar og sjást þar 1000 sagnir á hverri síðu. Hægt er að fletta á milli sagna eða síðna í listanum með því að ýta á örvatakkana fyrir ofan listann eða með því að nota örvatakkana á lyklaborðinu.
2.1 Leitað að sögnum
Fyrir ofan listann er einnig að finna leitarmöguleika. Hægt er að leita eftir ákveðnu orði og er þá leitað í nafni sagnarinnar eða útdrætti hennar. Einnig er hægt að smella á Ítarlegri leit og fá þannig upp þrjá sérsniðna leitarmöguleika. Til að leita eftir ákveðnum skilyrðum er smellt á viðeigandi þátt leitarinnar og opnast þá viðkomandi leitarþáttur þar sem hægt er að ákvarða leitarskilyrðin. Á myndinni hér til hliðar er til að mynda verið að leita eftir sögnum sem tengjast efnisorðinu huldufólk og eru í safni Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Þegar smellt er á Leita birtast leitarniðurstöðurnar í listanum fyrir neðan. Í leitinni er til dæmis hægt að velja fleiri en eitt efnisorð og þá leita annars vegar eftir sögnum sem hafa öll valin efnisorð eða öllum sögnum sem hafa eitthvert valinna efnisorða. Ef leitað er til dæmis eftir efnisorðunum prestar og draugar munu þá munu væntanlega fleiri sagnir birtast í leit að öllum sögnum sem fjalla annað hvort um presta eða drauga heldur en ef aðeins er leitað eftir sögnum sem fjalla um bæði presta og drauga. Til að losna við leitarniðurstöðurnar úr listanum skal smella á Sjá allar sagnir.
3. Kortið
Á kortahluta Sagnagrunnsins má sjá staði sem koma fyrir í sögnunum ásamt heimilum heimildamanna. Þar birtast því annars vegar sögustaðir og hins vegar heimili. Þegar kortið er opnað birtast því allir kortlagðir staðir sem eru fjölmargir. Hægt er að smella á punktana og birtast þá í listanum til hægri þær sagnir sem tengjast staðnum og þeir einstaklingar sem bjuggu þar.
3.1 Leitarvél kortsins
Kortið er einn stærsti hluti Sagnagrunnsins og má þar kalla fram margs konar leitarniðurstöður. Til þess eru margir leitarmöguleikar í boði og er hægt að leita eftir eftirfarandi skilyrðum:
- Blönduð leit að sögustöðum þar sem leitað er eftir einu eða fleirum af eftirfarandi skilyrðum:
- Sagnir sem hafa ákveðin efnisorð, eitt eða fleiri.
- Heimildarmaður eða sendandi.
- Sagnir sem eru úr ákveðnu þjóðsagnasafni.
- Kyn heimildarmanns.
- Sagnir þar sem útdráttur sagnar, ML, AT, MI númer eða titill innihalda ákveðin orð.
- Leit að sögustöðum sagna heimildarmanna úr ákveðinni sýslu.
- Leit að heimilum heimildarmanna úr ákveðnu þjóðsagnasafni.
- Leit að heimilum heimildarmanna sem eru annaðhvort konur eða karlar.
- Leit að heimilum heimildarmanna sem segja sagnir sem gerast í ákveðinni sýslu.
- Leit að ákveðnum stað eða örnefni.
Þegar komið er inn á kortið sést leitarvélin hægra megin. Hún virkar svipað og leitarvélin sem lýst var hér að ofan. Hægt er að smella á þrjá grunnmöguleika sem eru Leita að sögustöðum, Leita að heimilum og Leita eftir staðarnafni eða örnefni. Undir hverjum þessara möguleika eru svo nokkrir viðbótarmöguleikar til að þrengja leitina.
3.1.1 Leit eftir sögustöðum
Leit að sögustöðum leitar eftir stöðum í Sagnagrunninum sem tengdir eru ákveðnum sögnum. Ef smellt er á Leita að sögustöðum og svo á Leita án þess að frekari skilyrði eru tilgreind munu á kortinu aðeins birtast staðir sem tengjast einhverjum sögum. Hægt er svo að þrengja leitina með því að leita eftir ákveðnum efnisorðum, sögnum ákveðins heimildamanns, sögnum úr ákveðnu þjóðsagnasafni, sögnum sem innihalda ákveðinn texta í nafni eða útdrætti, sögnum annað hvort kvenkyns eða karlkyns heimildamanna eða sögnum heimildamanna sem bjuggu í ákveðinni sýslu. Því er hægt að smella á alla möguleikana sem eru undir hverjum grunnmöguleika leitarinnar og þannig mynda setningar á borð við Leita að sögustöðum… …sem tengjast sögnum með eftirfarandi efnisorð. Undir hverjum undirmöguleika er svo hægt að tilgreina þau skilyrði sem leitað er eftir. Hér verður farið yfir nokkra þeirra en athygli skal vakin á því að suma þessara möguleika er hægt að nota saman en aðra ekki. Til dæmis er hægt að leita eftir ákveðnum efnisorðum úr ákveðnu þjóðsagnasafni en ekki er hægt að leita eftir ákveðnum efnisorðum í sögnum heimildamanna úr ákveðinni sýslu.
3.1.2 Leit eftir efnisorðum
Leit eftir ákveðnum efnisorðum getur skilað margs konar niðurstöðum, sérstaklega ef leitað er eftir fleiri en einu efnisorði. Fyrst er smellt á Leita að sögustöðum… og svo …sem tengjast sögnum með eftirfarandi efnisorð. Næst er smellt á Velja takkann og birtist þá listi þar sem hægt er að velja þau efnisorð sem leitað er eftir. Í sviganum fyrir aftan hvert efnisorð sést hversu margar sagnir tengjast því. Hægt er að velja fleiri en eitt efnisorð og er þá hægt að velja hvort leitað sé eftir sögnum sem tengjast þeim öllum eða öllum sögnum sem tengjast einhverju þeirra. Með því að smella á eitthvert valinna efnisorða hverfa þau úr listanum og þannig er hægt að byrja upp á nýtt. Ef smellt er á punkt á kortinu sem tengist leit eftir ákveðnum efnisorðum munu þær sagnir sem tengjast því efnisorði vera merktar með appelsínugulum lit í listanum til hægri. Það er gert til þess að auðveldara sé að finna þær sagnir sem tengjast leitinni þar sem oft tengist mikill fjöldi sagna sama staðnum. Dæmi um þetta má sjá á myndinni hér til hliðar.
3.1.3 Leit eftir sögustöðum sem tengjast sögnum heimildamanna úr ákveðinni sýslu
Með þessum leitarmöguleika má kalla fram á kortinu sagnir heimildamanna úr ákveðinni sýslu. Þannig eru allir heimildamenn sem búa í valinni sýslu teknir og sagnir þeirra kortlagðar. Flestar þessara sagna gerast í heimasýslu heimildamannanna en dreifingin gefur athyglisverða sýn sem varpar upp spurningar á borð við ferðalög fólks og tengingar á milli landshluta. Dæmi um þetta má sjá hér að neðan þar sem sögustaðir heimildamanna úr Skagafjarðarsýslu sjást og birtast þar augljós tengsl Suðurnes og Snæfellsnes sem væntanlega tengjast verstöðvum þar.
3.2 Leit að heimilum
Ef smellt er á Leita að heimilum… og því næst á Leita birtast á kortinu aðeins þeir staðir sem tengjast einstaklingum. Undir þessum grunnleitarmöguleika má svo finna fjóra undirmöguleika sem flestir segja sig nokkurn veginn sjálfir. Hér verður aðeins fjallað um tvo síðustu undirmöguleikana.
3.2.1 Leit að heimilum heimildamanna sagna sem gerast í ákveðinni sýslu
Þessi leitarmöguleiki er svipaður þeim sem fjallað var um hér að ofan nema hér er dæminu snúið við. Þarna er hægt að velja ákveðna sýslu og munu þá á kortinu birtast heimili heimildamanna sem sögðu sagnir sem gerast í viðkomandi sýslu.
3.2.2 Leit að heimilum heimildamanna sagna sem tengjast ákveðnum efnisorðum
Í þessum möguleika má tilgreina efnisorð og kalla fram heimili þeirra heimildamanna sem sögðu sagnir sem tengjast viðkomandi efnisorði. Þessi möguleiki getur því verið gagnlegur til að bera saman dreifingu þeirra sögustaða sagna sem tengjast efnisorðinu við heimili heimildamannanna.
3.3 Listinn yfir tengda einstaklinga og sagnir
Í listanum yfir þá einstaklinga og/eða sagnir sem tengjast ákveðnum stöðum má fá fram nánari upplýsingar. Á myndinni hér að neðan má sjá hluta af kortinu og til hliðar sjást upplýsingar um bæinn Víðidalstungu í Vestur-Húnavatnssýslu.
Á myndinni sjást þrjár sagnir sem gerast á Víðidalstungu, Jón Ólafsson vísilögmaður, Páll lögmaður Vídalín og Litluborgar-Toppur. Fyrir neðan þessar þrjár sagnir kemur svo nafn Páls Vídalín Jónssonar (1827-1873) sem bjó þar og var bæði heimildamaður Jóns Árnasonar ásamt því að hafa safnað fyrir hann. Á myndinni er búið að smella á nafn Páls og birtast þá undin nafni hans þær sagnir sem tengjast honum. Fyrir framan bæði nafn Páls og nöfn sagnanna eru svo gráir takkar. Með því að smella á einhvern þeirra birtast á kortinu þeir staðir sem annað hvort tengjast viðeigandi sögn eða staðir sem tengjast sögnum viðkomandi einstaklings.
4. Efnisorð
Efnisorð eru valin úr stöðluðum lista og varpa ljósi á efni og innihald sagnarinnar og í flestum tilfellum tengjast fleiri en eitt efnisorð hverri sögn. Hægt er að sjá öll efnisorð í Sagnagrunninum hér og má þar einnig sjá tengsl þeirra við sagnir og önnur efnisorð. Í þriðja dálkinum í töflunni sést hversu margar sagnir tengjast hverju efnisorði. Hægt er að raða töflunni annars vegar eftir efnisorðunum í stafrófsröð með því að smella á Efnisorð fyrir ofan annan dálk töflunnar. Einnig er hægt að raða eftir fjölda sagna sem tengjast hverju efnisorði með því að smella á Sagnir fyrir ofan þriðja dálk. Ef smellt er á eitthvert efnisorðanna í listanum opnast gluggi þar sem hægt er að sjá þær sagnir sem tengjast því. Ennfremur birtist þar stöplarit sem sýnir tengsl efnisorðsins við önnur efnisorð. Dæmi um þetta má sjá á myndinni hér fyrir neðan þar sem sjá má tíu algengustu efnisorðin sem tengjast efnisorðinu ferðalög.
Þarna gefur myndritið innsýn inn í efni þeirra sagna sem á einhvern hátt fjalla um ferðalög. Alls fjalla 807 sagnir um ferðalög og af þeim fjalla 157 sagnir um hesta, 125 sagnir fjalla um slysfarir og 97 fjalla um tíðarfar. Þarna gæti mörgum þótt nokkuð augljós sagnaefni koma í ljós þar sem í ferðalögum voru gjarnan hestar með í för. Einnig ef hugsað er til þess sem í frásögur var færandi tengt ferðalögum á 19. öld þá er ekki ólíklegt að slysfarir og veður komi þar við sögu. Þarna er því hægt í fljótu bragði að fá hugmynd um efni ákveðinna sagna áður en dýpra er kafað ofan í gögnin.
5. Vista myndir af kortum
Ekki er hægt að vista myndir beint úr vefskoðaranum. Til þess þarf að vista myndir af kortum þarf því að fara aðrar leiðir.
Í valmyndinni fyrir ofan kortið má finna takka sem nefnist Fylla skjá. Ef smellt er á hann hverfur viðmótið í kringum kortið þannig að það fær að njóta sín. Enn fremur bjóða flestir vefskoðarar upp á að ýtt sé á F11 takkann á lyklaborðinu þannig að myndin fylli upp í allan skjáinn. Með þessu móti má staðsetja kortið á miðjum skjánum og ýta því næst á Print Screen takkann á lyklaborðinu (stundum skammstafað PrtScr) til að taka mynd af skjánum. Því næst skal opna forrit á borð við Paint (Windows), Adobe Photoshop eða Microsoft Word (eða önnur ritvinnsluforrit) þar sem farið er í Edit og Paste til að setja inn myndina af skjánum. Þaðan er svo hægt að vista myndina. Athygli skal vakin á því að mælt er með því að nota forrit á borð við Paint eða Photoshop til að vista myndir.