Sagnagrunnur

Kortlagður gagnagrunnur yfir íslenskar sagnir
A geographically mapped database of Icelandic folk legends

Opna kort / Open map   Ítarleg útgáfaAdvanced version

Category: Pistlar

Fjöldi einstaklinga og sagna eftir stöðum

Ég tók hluta gagnanna úr Sagnagrunni og setti yfir í kortavinnslukerfið CartoDB. CartoDB býður upp á ýmsa athyglisverða möguleika til að birta kortagögn.
Á eftirfarandi korti sjást þrjú lög: Þar má fyrst sjá heimili heimildamanna (bláir punktar) og ræðst stærð punktanna af því hversu margir bjuggu á hverjum stað. Næst koma sögustaðir (appelsínugulir punktar) og ræðst stærðin þar af því hversu margar sagnir gerast á hverjum stað. Síðasta lagið (grænir punktar) sýnir aftur heimili heimildamanna en nú ræðst stærðin af því hversu margar sagnir heimilisfólk sagðir.
Athugið að hægt er að fela einstök kortalög í valmynd yfir kortinu og hér er einnig hægt að sjá stærra kort.

Kortlagningu að mestu lokið

Þjóðsagnaverur - leiðrétt

Nú er fyrsta stigi kortlagningar á landinu öllu lokið. Búið er að fara yfir allar sýslur og hnitsetja flesta staðina. Þó er um 40% staðanna í gagnagrunninum eftir og verður næsta verkefni að fara yfir þá.

Sem dæmi um birtingarmynd gagnanna þá gerði ég þetta kort yfir helstu þjóðsagnaverur í þjóðsagnasöfnunum. Það er greinilegt að það er heilmargt sem má gera við Sagnagrunninn í framtíðinni.

Tengingar sagnamanna við sögustaði

sagnamenn

Hér má sjá smávegis tilraun til myndrænnar framsetningar. Á kortinu er hægt að smella á heimili heimildafólks og birtast þá línur út frá staðnum. Þessar línur benda á sögustaði þeirra sagna sem hafðar voru eftir heimilisfólki. Þannig má á auðveldari hátt sjá hvaðan sagnir fólks koma.

 

Sagnakort Suður-Þingeyjarsýslu

Screenshot from 2014-02-25 12:38:41

Vefurinn Sagnakort hefur nú opnað. Þar má finna á gagnvirku korti þjóðsögur úr Suður-Þingeyjarsýslu, hljóðupptökur frá Stofnun Árna Magnússonar og Ísmús.is ásamt byggðaupplýsingum byggðum á manntalsupplýsingum.

Nábýli við Heklu

Á ímyndaðri ferð minni um Rangárvallasýslu komst ég ekki hjá því að sjá vísbendingar í örnefnum um erfitt nábýli við Heklu. Fjölmargir bæir í Landsveit vestan við fjallið eiga sér systkini með forskeytinu gamla eða gamli og eru þau gjarnan staðsett í hrauni ekki langt frá núverandi staðsetningu bæjarins. Þessi örnefni gefa þess vegna vísbendingu um að þar hafi bærinn staðið áður en hann lenti undir hrauni eða ösku. Sem dæmi um bæi sem eiga sér eldra systkini er til dæmis Galtalækur (Gamli-Galtalækur), Skarð (Gamla-Skarð), Skarðssel (Gamla-Skarðssel) og Vindás (Gamli-Vindás).

Bæir í nágrenni Heklu með forskeytið gamli- eða gamla-.

Einnig sjást á kortum heilu byggðirnar þar sem nú eru hraun og sandar. Í Hrauninu norðan við bæinn Keldur skammt frá Rangárvöllum er að finna nokkur örnefni sem gefa til kynna að þar hafi verið byggð. Þetta eru örnefni á borð við Keldnasel, Litliskógur, Tröllaskógur ásamt fleirum.

Kortlögð eyðibýli norðan við bæinn Keldur

Söfn úr ýmsum áttum

Eitt af því sem þarf að skoða við kortlagningu á þjóðsögunum er fjöldi þeirra þjóðsagnasafna sem í grunninum eru og hvenær þessum sögnum var safnað. Söfnin eru alls 19 en þau eru ansi misjöfn að stærð og umfangi. Safn Jóns Árnasonar, Íslenskar þjóðsögur og ævintýri inniheldur til dæmis 2.683 sagnir, safn Sigfúsar Sigfússonar, Íslenskar þjóðsögur og sagnir inniheldur 1.651 sögn og safn Ólafs Davíðssonar, Íslenskar þjóðsögur inniheldur 1.118. Einnig eru þarna smærri söfn eins og safn Helga Guðmundssonar, Vestfirzkar sagnir sem inniheldur 404 sagnir og safn Arngríms Fr. Bjarnasonar, Vestfirzkar þjóðsögur sem inniheldur 240.

Það má deila um það hvort rétt sé að stilla öllum sögnunum úr þessum söfnum saman á korti þar. Ástæður fyrir því eru nokkrar. Sögnunum var  tildæmis safnað á mismunandi tímum, Jón Árnason byrjaði upp úr miðri 19. öld en Sigfús Sigfússon safnaði til dæmis nær aldamótunum 1900. Loks var þónokkru safnað á 20. öldinni. Kortlagningin er því í raun þrívíð. Eins voru mismunandi áherslur safnara og áhugasvið. Heimildamenn þeirra voru úr mismunandi stéttum og kynjahlutfall mjög misjafnt. Einnig einbeittu safnararnir sér að mismunandi landssvæði, sumir söfnuðu af landinu öllu á meðan aðrir héldi sig við afmörkuð svæði eins og Sigfús Sigfússon á austurlandi og Arngrímur Fr. Bjarnason og Helgi Guðmundsson á vesfjörðum.

Hér fyrir neðan sjást nokkur dæmi um ólíka sagnastaðir mismunandi þjóðsagnasafna.

Arngrímur Fr. Bjarnason, Vestfirzkar þjóðsögur 3 bindi. (Ísafjörður: Arngrímur Bjarnason og Oddur Gíslason, 1909) 2. útgáfa (Reykjavík: Ífoldarprentsmiðja,1954; 1959)

 

Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Rits. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961)

 

Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir. 11. Bindi; 2. útgáfa. Rits. Óskar Halldórsson og fl. (Reykjavík: Þjóðsaga hf.,1982-1993)

 

Þorsteinn M. Jónsson, Gríma hin nýja. 10 bindi (Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga,1964-1965)

Kortlagningu miðar áfram

Nú er Snæfellsnesið að verða búið og þá eru 2.285 staðir komnir á kortið sem þó eru aðeins um 25% allra staðanna. Þó verður að hafa það í huga að þessi prósentutala gefur ekki alveg rétta mynd, samanber þessa færslu.

Google kortið sem ég nota býður upp á að sjá fjölda punkta á ákveðnu svæði með því að skipta kortinu upp í reiti og telja punktana innan þeirra. Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig sögustaðir dreifast frá Norður-Þingeyjarsýslu vestur að Snæfellsnesi. Þegar búið verður að fara yfir alla sagnamenn og safnara í grunninum verður hægt að útbúa svipað kort sem mun þá sýna fjölda heimila þeirra.

sögustaðir

Örnefni í Austur-Barðastrandarsýslu

Í Austur-Barðastrandarsýslu má finna mörg skemmtileg örnefni eins og Sauðaspillir, Illatjörn, Tólfhjónafæða, Stórfiskasker og Hvalhausahólmi. Til eru sagnir um mörg örnefni og aðrar skýringar hafa geymst í munnmælum. Þó standa fjölmörg þeirra stök án heimilda og því verður ímyndunaraflið að duga til að skýra nafngiftina.
Ætli skerið Tólfhjónafæða hafi verið matarkista sem dugði 24 fullorðnum manneskjum?

Slóðir

þoka

Gögn hafa þá eiginleika að geta tekið á sig ótal myndir. Kortagögn eru til dæmis bara punktar sem þarf að raða á réttan hátt ofan á kort eða loftmynd til að við náum að skilja þau og setja í samhengi. Hér gerði ég smá tilraun og ákvað að taka kortið í burtu þannig að punktarnir einir stóðu eftir. Punktarnir tákna þá sögustaði sem kortlagðir hafa verið. Efst glittir í Kolbeinsey en neðst er Reykjavík.

Hestar í Skagafirði og Eyjafirði

Skagfirðingar hafa löngum verið miklir hestamenn og til gamans má hér sjá kort yfir sagnir þar sem hestar koma við sögu. Þetta er náttúrulega frekar grunn greining enda vantar að kafa ofan í samhengið. Verkefni sumarsins (vonandi) verður að rannsaka hvað hlutir á borð við þetta segja okkur.

hestar